„Samstarfið við Adyen mun gera Straumi kleift að bjóða uppá nýjungar í greiðslumiðlun og auka verulega þjónustuframboð til viðskiptavina,“ segir Lilja Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Straums.
Straumur hefur skrifað undir samstarfssamning við hollenska fjártæknifyrirtækið Adyen um færsluhirðingu og vöruþróun á sviði fjártækni. Adyen er alþjóðlegt fyrirtæki í fjármálaþjónustu og sér meðal annars um greiðslur fyrir H&M, Spotify, Uber, Electrolux og Microsoft. Adyen, sem stofnað var árið 2006, er eitt fremsta fjártæknifyrirtæki heims á sviði stafrænna greiðslna, gagnastjórnunar og fjármálasamþættingar.
„Hjá Straumi erum við staðráðin í að bjóða uppá framúrskarandi greiðslulausnir fyrir söluaðila. Nálgun okkar gengur út fyrir hefðbundna greiðslumiðlun; við lítum á okkur sem samstarfsaðila viðskiptavina okkar og viljum hjálpa þeim að vaxa. Samstarfið við nýjan öflugan færsluhirði gerir okkur kleift að auka tæknilega getu og þjónustuframboð okkar verulega,“ segir Lilja Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Straums.
„Við hjá Adyen erum stolt af því að vinna með samstarfsaðilum sem drífa heim greiðslulausna áfram. Þess vegna erum við spennt fyrir að koma inná íslenska markaðinn í samstarfi við Straum sem færsluhirðir þeirra. Vöru- og þjónustuframboð Straums í greiðslumiðlun á Íslandi ásamt fjártæknilausnum okkar mun tryggja auðveldari, öruggari og einfaldari greiðslur fyrir íslenska neytendur um allt land,“ segir Tobias Lindh, framkvæmdastjóri Adyen Nordics & Baltics.
Þjónustuver Straums er opið alla virka daga 9 – 16